Um fyrirtækið 
Sími : 568-1888
Netfang : arnar@pog.is

Gólfhiti

Allar sömu reglur gilda um parketlögn á gólfhita og á venjuleg gólf.

Mjög mikilvægt er að gólfhiti hafi verið sá sem á að vera á húsinu í minnst 6 vikur fyrir parketlögn.

Hitinn í gólfunum skal vera stilltur þannig að hann fari aldrei yfir 25 °C.

Einum sólarhring áður en lagt er á gólfið skal lækka gólfhita niður í 20-22 °C,

ef um vetrartíma er að ræða skal passa að lofthiti fari aldrei niður fyrir 18 °C meðan á gólflögn stendur.

 

Réttleiki gólfs

Áður en parket er lagt á gólf þarf að athuga réttleika þess.

Er þá verið að tala um hvort það séu “bollar eða kúlur” á gólfinu og hvort það sé mikil hækkun/lækkun upp við veggi.

Skekkjan má helst ekki vera meiri en tveir millimetrar á tveggja metra langri réttskeið.

 

Yfirborð gólfs

Yfirborð þarf að vera hreint, þurrt og laust við allt ryk og fitu þegar líma á niður parket.

Til að prófa yfirborðsbindingu getur verið gott að líma niður nokkrar prufur hér og þar um gólfið og rífa það síðan upp sólarhring seinna.

Meta má nokkurn veginn viðloðun gólfsins eftir því hversu erfitt er að rífa upp prufurnar, því erfiðara, því betra.

Það er aldrei gott að líma parket á máluð gólf, málning hefur litla viðloðun og eru miklar líkur á að parketið losni frá gólfinu eða að málningin losni frá ílögninni.

Gott er að grunna gólf áður en parket er límt niður, hvort sem það er ber steinn eða flotmúr/ílögn.

Það gefur aukna viðloðun og bindur ryk þannig að parketið losnar síður frá gólfinu.

 

Rakastig

Þegar kemur að parketlögn er mjög mikilvægt að huga að rakastigi, bæði loftraka og rakastigi plötunnar.

Loftraki íbúðarhúsnæðis á Íslandi er um 40% að meðaltali og miðað við það þarf rakasti parketsins að vera um 8% til að jafnvægi haldist og parketið hreyfi sig sem minnst.

Við langvarandi hækkun eða lækkun rakastigs andrúmsloftsins þrútnar eða rýrnar parketið.

Reikna má með því að venjuleg gólfplata sé allt að 2 ár (miða skal við þann tímapunkt þegar byggingu er lokað og hiti kemst á)

að ná 70% hlutfallsraka (HR) sem eru þau mörk sem miða ber við þegar líma skal niður gegnheilt parket.

Hægt er að miða við allt að 80% HR ef leggja skal fljótandi parket en er þó æskilegt að leggja alltaf þolplast undir sem rakavarnarlag í nýjum húsum.

 

Hljóðeinangrun

Hljóðeinangrandi undirlag er farið að nota í mjög ríkum mæli og er skylda að nota slíkt í fjölbýli til að draga úr hávaða milli hæða.

Undir fljótandi parket er það lagt laust á gólfið en ef líma á niður parketið er undirlagið fyrst límt niður og síðan parketið ofan á það.

Mælt er með að nota tveggja þátta parketlím sem gefur ekki frá sér spíra eða rakauppgufun og því ekki hætta á að undirlag bretti upp á sig á samskeytum.

 

Hvað ber að varast

Þegar parket kemur í hús skal ekki leggja það strax.

Þannig nær parketið að aðlagast rakanum og hitanum í umhverfinu og minnkar það líkur á að parketið “fari af stað” eftir að það er lagt.